Annir við útskipanir

Miklar annir eru um þessar mundir við útskipanir á frystum afurðum í Fjarðabyggð. Tandraberg lestaði í dag ríflega 600 tonn af afurðum í Green Bergen á Eskifirði. Green Bergen sigldi rakleitt til Fáskrúðsfjarðar eftir lestun á Eskifirði í dag til lestunar.  

Þessa stundina er verið að leggja lokahönd á að lesta 3.500 tonn um borð í Green Maveric á Neskaupstað, en lestun hófst á fimmtudaginn í síðustu viku. Hlé var gert á lestun á meðan landað var um 2.000 tonnum úr Kristínu EA á laugardaginn. Á næstu dögum verður lestað í Neskaupstað í þrjú skip sem liggja í röð úti fyrir höfninni á Norðfirði og bíða þess að þau verði afgreidd. Á meðfylgjandi mynd má sjá skipin lóna í firðinum, Stigfoss innst, þá Harengus og yst Coral Mermaid. Myndin er fengin úr vefmyndavél Síldarvinnslunnar á vef Fjarðabyggðar.

Tandraberg kaupir kantsteinavél

Tandraberg hefur fest kaup á kantsteinalagningarvél og er nú þess albúið að leggja kantsteina fyrir sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga á Austurlandi.

Hamagangur var í öskjunni þegar fyrsta alvöru kantsteinasteypan var lögð við smábátahöfnina á Fáskrúðsfirði í síðustu viku. Steyptir voru um 500 metrar af kantsteini en áður höfðu starfsmenn Tandrabergs tekið eina stutta steypu í Neskaupstað.

Tandraberg ehf er aðalverktaki við framkvæmdirnar á Fáskrúðsfirði og er þetta þriðja smábátahöfnin í Fjarðabyggð sem fyrirtækið sér um útlitsupplyftingu og umhverfisfrágang á en Tandraberg sá einnig um umhverfisfrágang og fegrun smábátahafnanna á Eskifirði og Reyðarfirði. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum á Fáskrúðsfirði í þessum mánuði.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar yfirvélstjóri kantsteinavélarinnar, Björn Hafsteinsson og vinnuflokkur hans lagði kantsteinana á Fáskrúðsfirði og má sjá forstjóra fyrirtækisins í essinu sínu sem sérlegur aðstoðarmaður yfirvélstjórans.

Tvær mjölútskipanir á innan við viku

Starfsmenn Tandrabergs skipuðu út um 2400 tonnum af kolmunnamjöli á tæpri viku á Eskifirði. Á fimmtudaginn í síðustu viku kom Hav Sand til Eskifjarðar og lestaði rúmlega 1140 tonn og Pluto var síðan mættur á miðvikudagsmorguninn til þess að lesta ríflega 1230 tonn af mjöli. Oftast líður ekki svo stuttur tími á milli afskipana á mjöli á Eskifirði en það kemur þó fyrir. 

Af öðrum skipakomum er það að frétta að Bjartur NK landaði rúmum 90 tonnum á mánudaginn á Neskaupstað. Bjartur er væntanlegur til löndunar mánudaginn 30. júní og þann sama dag stendur til að Barði NK komi inn til löndunar á Neskaupstað

Á meðfylgjandi mynd má sjá Smára sturta 17 tonnum á færibandið þegar Hav Sand var lestað í síðustu viku.

Mjölútskipun