Landanir vikunnar

Starfsmenn Tandrabergs eru þessa stundina að ljúka við löndun á 1900 tonnum af kolmunna úr Jóni Kjartanssyni sem kom til Eskifjarðar í gærkvöldi.

Bjartur landaði á Neskaupstað á þriðjudagsmorgun um 100 tonnum af bolfiski og línuskipið Anna EA landaði svipuðu magni á Eskifirði síðar um daginn.

Þá luku starfsmenn Tandrabergs við löndun á tæpum 48 þúsund tonnum af súráli á Mjóeyrarhöfn í gærmorgun. Það var gamall kunningi, Lowland Opal sem kom með farminn frá Sao Luis í Brasilíu á fimmtudaginn í síðustu viku. Það tók því fimm og hálfan sólahring að tæma skipið.

Snjóflutningar fyrir Fortitude

Það er fátt sem Tandraberg tekur ekki að sér. Það var því auðsótt mál þegar Pegasus sló á þráðinn og óskaði eftir liðsinni Tandraberg við gerð sjónvarpsþáttaraðarinnar Fortitude. Liðsinnið fólst í því að flytja snjó ofan af Fagradal og niður á Reyðarfjörð. Tandraberg brást skjótt við og sendi þrjá bíla til verksins. Á meðfylgjandi myndum er verið að moka snjó á einn af bílum Tandrabergs í blíðunni sem alltaf virðist gera vart við sig þegar tökur á þáttaröðinni fara fram.

Líf og fjör í Eskifjarðarhöfn

Síðast liðinn sunnudag unnu starfsmenn Tandrabergs að löndun á þremur ísfisktogurum samtímis á Eskifirði.
Það voru Sóley Sigurjóns GK, Vörður EA og Frosti ÞH sem komu inn til löndunar með samtals tæplega 800 kör af bolfiski. Aflanum var ekið suður og norður í land samtals 11 bílfarmar. Í gær, mánudag, landaði síðan Berglín GK rúmlega 300 körum og því komu samtals um 1.100 kör að landi á Eskifirði á sunnudag og mánudag. Von er á þremur togurum til löndunar á Eskifirði á morgun miðvikudag.
Meðfylgjandi myndir tók Einar Birgir Kristjánsson á sunnudaginn.